Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 866  —  487. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Eyjólfi Ármannssyni um ráðstöfun Byggðastofnunar á aflaheimildum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver var úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga og skipa sem fengu úthlutað slíkum veiðiheimildum skv. 10. gr. a með heimild í 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, sundurliðað eftir fiskveiðiárum tímabilið 2021–2022 þar til nú? Þess er óskað að eftirfarandi þættir verði tilgreindir: skráningarnúmer, nafn skips og einkennisstafir, eigandi þess, heimahöfn, stærð og útgerðarflokkur viðkomandi skips, úthlutað aflamark og úthlutaðar aflaheimildir frá Byggðastofnun, aflamark sem flutt hefur verið frá skipinu, afli skips, landaður afli í því byggðarlagi sem tilheyrir aflaheimildum Byggðastofnunar til skipsins. Aflatölur og aflamark taki til eftirtalinna tegunda: þorsks, ýsu, ufsa, steinbíts, gullkarfa, keilu og löngu.

    Ráðuneytið leitaði svara við fyrirspurninni hjá Byggðastofnun og byggjast svörin á minnisblaði stofnunarinnar til ráðuneytisins þar um. Í minnisblaðinu er efni fyrirspurnarinnar skipt niður í 12 töluliði út frá efni hennar: 1. Skráningarnúmer skips. 2. Nafn skips. 3. Einkennisstafir skips. 4. Eigandi skips. 5. Heimahöfn skips. 6. Stærð skips (væntanlega í brúttótonnum). 7. Útgerðarflokkur skips. 8. Úthlutað aflamark skips (þó ekki ljóst hvort um er að ræða heildaraflamark eða það aflamark sem úthlutað er á grundvelli aflahlutdeildar eingöngu). 9. Úthlutaðar aflaheimildir Byggðastofnunar skv. 10. gr. a laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. 10. Aflamark sem flutt hefur verið frá skipi. 11. Afli skips. 12. Landaður afli skips í því byggðarlagi sem úthlutun skv. 9. lið tilheyrir.
    Byggðastofnun bendir á að hún hefur einungis yfir að ráða upplýsingum um úthlutun þeirra aflaheimilda sem hún úthlutar á grundvelli samninga við vinnslu- og útgerðaraðila í þeim byggðarlögum sem njóta aflaheimilda skv. 10. gr. a í lögum um stjórn fiskveiða, þ.e. upplýsingar skv. 9. lið.
    Aðrar upplýsingar sem óskað er eftir má annars vegar finna á vef Fiskistofu sem að hluta byggjast á upplýsingum frá Samgöngustofu (skipaskrá). Hins vegar og eftir atvikum með því að beina viðkomandi upplýsingabeiðni til matvælaráðuneytis eða Fiskistofu. Varðandi 12. lið myndi stofnunin þá veita Fiskistofu upplýsingar um það á hvaða skip aflaheimildir sem tilheyra einstökum byggðarlögum hefðu verið fluttar.
    Byggðastofnun bendir á að upplýsingar skv. 9. og 12. lið segja alls ekki alla söguna um veiðar og löndun afla á grundvelli úthlutana skv. 10. gr. a í lögunum. Kemur það til af því að samkvæmt ákvæðum laganna skal aflaheimildum úthlutað „í þorski, ýsu, steinbít, ufsa, löngu, keilu og gullkarfa í hlutfalli við leyfðan heildarafla af þessum tegundum“. Þessi tegundasamsetning hentar flestum minni útgerðum og fiskvinnslum illa og því eru heimildarákvæði í 8. gr. reglugerðar um ráðstöfun og meðferð aflaheimilda skv. 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, nr. 643/2016, þess efnis að heimilt sé að skipta á tegundum í jöfnum skiptum í þorskígildum talið. Þau skipti fara venjulega þannig fram að stærri útgerðir taka að sér að vista þær aflaheimildir, allar eða að hluta, sem samningsaðilar hafa yfir að ráða og þeim tegundum sem ekki henta veiðum og vinnslu samningsaðila er skipt á móti tegundum sem það gera og eru síðan fluttar á þau skip og báta sem afla hráefnis til viðkomandi vinnslu.
    Um framkvæmd, réttindi og skyldur aðila, þ.m.t. ráðstöfunarrétt viðkomandi aflaheimilda fer samkvæmt sérstökum vistunarsamningum sem uppfylla þurfa ákveðin skilyrði og skylt er að skila inn til stofnunarinnar áður en færsla aflaheimildar er heimiluð.
    Ekki er unnt samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja hjá Fiskistofu að rekja hvernig þessi skipti á tegundum rekja sig á milli skipa. Hins vegar gefur gagnagrunnur Fiskistofu færi á því að sannreyna það magn sem landað er til viðkomandi vinnslu og samningsskuldbindingar aðila varða ákveðið magn sem landa skal til viðkomandi vinnslu. Það magn er í öllum tilfellum verulega umfram úthlutaðar aflaheimildir stofnunarinnar. Þannig er unnt að sannreyna að veiðar og vinnsla afla sé í samræmi við þau ákvæði sem í samningunum eru. Aðgangur stofnunarinnar að þessum gögnum er á grundvelli umboðs samningsaðila og notkun þeirra bundin við eftirlit stofnunarinnar með viðkomandi samningum. Hins vegar er einnig unnt að sannreyna með skoðun á gögnum á vef Fiskistofu að aflaheimildir sem stofnunin úthlutar séu ekki leigðar frá viðkomandi (samningsbundnum) útgerðum.
    Varðandi 10. lið er athygli vakin á því að upplýsingar sem einungis taka til aflamarks sem flutt er frá skipi, án þess að jafnframt sé skoðað hvað er flutt til skips, segja eðli málsins samkvæmt ekki alla söguna og gefa því alls ekki rétta mynd af raunverulegri aflamarksstöðu á hverjum tíma.
    Meðfylgjandi er fylgiskjal með upplýsingum um 9. lið eins og hann er skilgreindur hér að framan.



Fylgiskjal.


Ráðstöfun Byggðastofnunar á aflaheimildum.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0866-f_I.pdf